Erlent

Lentu flugvél á þjóðvegi

Óli Tynes skrifar

Kennsluflugvél úr síðari heimsstyrjöldinni var nauðlent á þjóðvegi í Wisconsin í Bandaríkjunum í gær vegna vélarbilunar. Vélin lenti innan um bíla sem voru þar á ferð, og varð að vonum uppi fótur og fit.

Flugsýningin Oshkosh stendur nú yfir í Wisconsin en þar safnast meðal annars saman eigendur bæði gamalla herflugvéla og allskonar furðufarartækja. William J. Leff var þar mættur ásamt syni sínum á T-6 kennsluvél úr síðari heimsstyrjöldinni. T-6 vélarnar gengu undir nafninu Harward í Bretlandi og nokkrar slíkar hafa verið keyptar hingað til lands.

Leff feðgarnir voru á flugi nokkuð frá flugvellinum þegar mótorinn byrjaði að hiksta og drap svo á sér. Þeir voru of langt frá vellinum til þess að geta svifið þangað vélarvana og gripu því til þess ráðs að nauðlenda á næsta þjóðvegi.

Sem betur fór tókst þeim að finna auðan kafla þar sem þeir gátu sett vélina niður á þessum annars fjölfarna vegi. Lendingin gekk ágætlega, en þó nokkrar skemmdir á hægri vængnum sem sópaði burt

öllum umferðarskiltum sem voru hægra megin við veginn.

Mörghundruð þúsund bandarískir herflugmenn hafa byrjað flugnám sitt á T-6 vélunum og þær voru einnig eitthvað notaðar til sprengjuárása bæði í síðari heimsstyrjöldinni og Kóreu stríðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×