Erlent

Mótmæla stórri mosku í Lundúnum

Óli Tynes skrifar
Moska í Pakistan.
Moska í Pakistan.

Hátt á þriðja hundrað þúsund manns hafa skrifað undir mótmæli gegn stórri mosku sem múslimasöfnuður vill byggja í Lundúnum. Moskan yrði kostuð af opinberu fé og kosta milljarða króna. Mótmælendurnir vilja að því fé verði varið til heilbrigðismála.

Moskan á að rúma 12 þúsund manns sem gerði hana að stærsta húsi allra trúarbragða í landinu. Það var kona að nafni Jill Barham sem hrinti undirskriftasöfnuninni af stað. Hún tengist hægri sinnaðri bloggsíðu sem kölluð er The English Rose, eða enska rósin.

Ef dæma má eftir formálanum á undirskriftalistanum er það þó ekki eingöngu umhyggja fyrir heilbrigðiskerfinu sem veldur því að Jill Barham vill láta mosku peningana ganga þangað. Í formálanum segir: "Við hin kristnu í þessu mikla landi viljum að hætt verði við að byggja risamosku í austurhluta Lundúna. Það myndi aðeins valda skelfilegu ofbeldi og þjáningum, og það ætti að veita meira fé til heilbrigðismála."

Margir þeirra sem skrifa undir láta fylgja með óprenthæfar skammir um múslima. Eins og; "Drepið alla niggara."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×