Erlent

Nýtt tungl við Satúrnus

Nýtt tungl er fundið á braut um reikistjörnuna Satúrnus. Þar með eru þekkt tungl Satúrnusar orðin sextíu talsins. Tunglið sást á myndum sem geimfarið Cassini-Huygens tók. Samkvæmt fyrstu útreikningum er tunglið um tveir kílómetrar á þvermál. Líkt og mörg önnur tungl Satúrnusar er það aðallega úr ís og bergi. Tunglið hefur ekki enn hlotið nafn en til bráðabrigða er það kallað Frank, eftir vísindamanninum sem kom auga á það.

 

Ferð Cassini-Huygens farsins er eitt metnaðarfyllsta geimverkefni sem ráðist hefur verið í. Þrjár geimferðastofnanir og sautján þjóðir koma að verkefninu. Farinu var skotið á loft í október 1997 og kom til Satúrnus sjö árum síðar. Stefnt er að því að farið verji fjórum árum á braut um Satúrnus við kannanir á reikistjörnunni og tunglum þess.

Vísindamenn telja að fjölmörg tungl séu enn ófundin við Satúrnus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×