Erlent

Varnarmálaráðuneytið húðskammar Hillary

Óli Tynes skrifar
Hillary ásamt eiginmanni sínum, Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Hillary ásamt eiginmanni sínum, Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. MYND/AP

Bandaríska varnarmálaráðuneytið gagnrýnir Hillary Clinton harkalega í svari við bréfi sem hún sendi ráðuneytinu vegna Íraksstríðsins. Í svarinu er hún sögð leggja óvinum Bandaríkjanna lið í áróðursstríði þeirra.

Hillary skrifaði Robert Gates varnarmálaráðherra bréf í maí síðastliðnum þar sem hún spurði hvort ráðuneytið hefði gert einhverja verklagsáætlun fyrir heimflutning bandarískra hermanna frá Írak. Fjölmiðlum var sent afrit af þessu bréfi. Nú hefur borist svar og það er ekkert verið að skafa utan af hlutunum.

Þar segir meðal annars: "Ótímabær opinber umræða um brottflutning bandarískra hermanna frá Írak styrkir þann áróður óvinarins að Bandaríkin muni svíkja bandamenn sína í Írak, eins og mörgum finnst að við höfum gert í Víetnam, Líbanon og Sómalíu."

Ráðuneytið bætir því við að málflutningur Hillarys dragi kjark úr þeim Írökum sem Bandaríkin biðji á hverjum degi um að leggja sig í mikla hættu í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×