Erlent

Japan: Óttast geislavirkan leka úr kjarnorkuveri

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Japanar óttast nú að geislavirk efni hafi lekið úr stærsta kjarnorkuveri heims í jarðskjálftanum í nótt sem var 6,8 á Richter. Annar jafnsterkur jafðskjálfti reið yfir sama svæði í dag. Að minnsta kosti sjö eru látnir og 800 slasaðir eftir jarðskjálftana.

Jarðskjálftinn varð klukkan 10 í morgun að staðartíma og var 6,8 á Richter. Upptök hans voru á sjávarbotni við norðvesturhluta Japan. Margir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, sá sterkasti var 5,8 á Richter. Það var svo rétt eftir klukkan tvo í dag að íslenskum tíma, eða um ellefu að kvöldi í Japan, að annar skjálfti upp á 6,8 reið yfir sama svæði.

Í fyrri jarðskjálftanum láku geislavirk efni með vatni út í sjó og eldur braust út í stærsta kjarnorku veri heims, Kashiwazaki-Kariwa. Sjálfkrafa slökknaði á kjarnakljúfum versins. Alls láku um 1200 lítrar vatns frá verinu, en embættismenn segja að engin umhverfishætta hafi skapast.

Hundruð heimila og fyrirtækja eyðilögðust í skjálftanum, vegir sprungu, skriðuföll lokuðu vegum og gríðarmiklar sprungur mynduðust. Rúmlega átta þúsund manns gistu í björgunarskýlum.

Shinzo Abe forsætisráðherra Japans gerði hlé á kosningaferðalagi sínu og flaug til þeirra svæða sem verst urðu úti í skjálftanum í nótt.

Hann lofaði að skjótum björgunaraðgerðum og að koma rafmagni og gasflutningum á sem fyrst.

Veðurfræðingar spá rigningu næstu tvo daga og er óttast að þær geti skapað frekari skriðuföll. Auk þess er búist við eftirskjálftum á svæðinu út vikuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×