Erlent

Franska lögreglan leitar morðingja sem flúði úr fangelsi

Jónas Haraldsson skrifar

Franska lögreglan leitar nú að dæmdum morðingja sem flúði á reyfarakenndan hátt úr fangelsi í suðausturhluta Frakklands seint í gærkvöldi.

Fjórir hettuklæddir menn rændu þyrlu í borginni Cannes, sem er ekki langt frá fangelsinu í Grasse. Þeir neyddu flugmann þyrlunnar til þess að aðstoða sig. Hann lenti þyrlunni síðan á þaki fangelsisins, á stað þar sem verðirnir gátu ekki skotið á þá. Því næst gripu þeir til þungavinnuvéla og beittu þeim á tvær hurðir til þess að brjótast inn í einangrunarklefa í fangelsinu og frelsa Pascal Payet, dæmdan morðingja. Aðgerðin öll tók aðeins um fimm mínútur.

Í annað sinn sem Payet flýr á þyrlu
Þyrlan sem Payet notaðist við á flóttanum.MYND/AFP

Þetta var í annað skiptið sem Payet notast við þyrlu til þess að flýja úr fangelsi. Hann var að sitja af sér þrjátíu ára dóm fyrir að myrða öryggisvörð í ráni á brynvörðum bíl. Payet var reglulega færður á milli fangelsa á þriggja mánaða fresti þar sem hann þótti líklegur til þess að reyna að komast undan.

Árið 2001 flúði hann fangelsið í Luynes á þyrlu og tveimur árum síðar fór hann sjálfur á sama stað á þyrlu til þess að frelsa þrjá samverkamenn sína.

Dómsmálaráðherra fyrirskipar rannsókn
Dómsmálaráðherra Frakka, Rachida Dati, sést hér ræða við fangelsisstjórann í Grasse, fangelsinu sem Payet flúði úr.
Dómsmálaráðherra Frakka, Rachida Dati, hefur þegar fyrirskipað rannsókn á flóttanum og því hversu örugg fangelsi í Frakklandi raunverulega eru. Þá sagði framkvæmdastjóri stéttarfélags fangavarða það nauðsynlegt að ræða hvernig ætti að taka á svona atvikum og hvernig eigi að bregðast við því að svo virðist sem sérþjálfaðar hersveitir séu ráðnar til þess að frelsa fanga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×