Erlent

Vilt þú gista í IKEA?

Hvar ætlar þú að gista í nótt?
Hvar ætlar þú að gista í nótt? MYND/AFP

IKEA í Noregi hefur ákveðið að leyfa fólki að gista í búðinni. Frá 23. júlí til 27. júlí fær almenningur tækifæri til þess að gista í öllum sýningarherbergjum í búðinni. Fólk getur valið úr brúðarsvítum eða lúxussvítu en henni fylgir morgunverður í rúmið. Svo geta aðrir gist í kojum nú eða fjölskylduherbergjunum.

Talsmaður IKEA, Frode Ullebust, sagði að IKEA búðin yrði eins og annars konar gistiheimili. Fólk myndi þurfa að koma á staðinn klukkutíma fyrir lokun, klukkan tíu á kvöldin, og svo rífa sig á fætur áður en búðin opnar klukkan tíu á morgnanna. Ullebust sagðist halda að þetta væri fyrsta IKEA búðin í heiminum til þess að bjóða upp á þessa þjónustu.

Fólk fær sloppa og inniskó merkta IKEA gistiheimilinu og síðan fær það að eiga rúmfötin til minningar um dvöl þeirra í búðinni. Þá er ógleymd skoðunarferð að næturþeli um innviði búðarinnar. Æstir IKEA aðdáendur geta sótt um fram til 18. júlí - þeir verða að skila inn umsókn og svara þar spurningunni „Af hverju vilt þú sofa í IKEA?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×