Sport

Nadal fúll þrátt fyrir sigur

AFP

Spænski tenniskappinn Rafael Nadal vann mjög nauman sigur á Robin Soderling á Wimbledon-mótinu í dag eftir að leik þeirra hafði verið frestað ótt og títt vegna veðurs. Nadal gagnrýndi mótshaldara fyrir lélegt skipulag í kring um rigningarnar og furðaði sig á því af hverju leikurinn var ekki kláraður fyrr.

Nadal vann leikinn 6-4 6-4 6-7 (7-9) 4-6 og 7-5, en þurfti að taka á öllu sínu og kallaði þetta einn erfiðasta sigur á ferlinum. Leikurinn byrjaði á laugardagskvöld, en gat ekki klárast fyrr en í morgun.

"Ég skil ekki af hverju við gátum ekki spilað á sunnudaginn þegar veðrið var í lagi og það er fáránlegt að fara inn á völlinn og spila aðeins 15 mínútur í senn. Þetta er mjög erfitt fyrir leikmennina, en kannski eru menn ekkert að hugsa mikið um leikmennina hérna," sagði Nadal og bætti því við að hann öfundaði keppinaut sinn Roger Federer. "Ég þarf að spila marga daga í röð en hann er búinn að hafa það náðugt í sínu fimm daga fríi," sagði Nadal og glotti.

Hann tryggði sér með sigrinum í dag sæti í fjórðungsúrslitum mótsins og þangað er Novak Djokovic einnig kominn eftir 7-6 (7-4) 6-7 (6-8) 6-2 7-6 (7-5) sigur á Nicolas Kiefer í síðasta leik þriðju umferðarinnar. Nadal mætir Mikhail Youzhny í fjórðu umferðinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×