Erlent

Endeavour á loft þann sjöunda ágúst

MYND/nasa

Nasa hefur staðfest brottfaradag næstu mönnuðu geimsferðar sinnar. Það er geimskutlan Endeavour sem tekst á loft þann sjöunda ágúst og heldur til Alþjóðageimstöðvarinnar. Erindi skutlunnar er að halda áfram uppbyggingu stöðvarinnar. Til dæmis verður haldið áfram að klæða stöðina og fyllt verður á byrðarnar.

Áður var brottför Endeavour dagsett þann níunda ágúst. Henni var flýtt til að rýma milli brottfarar Endeavour og brottfarar Atlas 5 sem dagsett er þann ellefta ágúst. Atlas 5 er eldflaug í þeim erindagjörðum að koma samskiptagervitungli á vegum bandaríska hersins á braut um jörðu.

Áætlað er að ferðalag Endeavour verði ellefu daga langt. Þetta er önnur ferð Nasa til Alþjóðageimstöðvarinnar en geimskutlan Atlantis lenti eftir fjórtán daga velheppnaða ferð þangað þann 22. júní síðastliðinn.

Endeavour er nefnt eftir 18du aldar barkskipi landkönnuðarins og stjörnuathugunarmannsins James Cook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×