Erlent

Tennur faraós

Fornleifafræðingar í Egyptalandi hafa fundið múmíu Hatshepshut sem er 3000 ára gömul. Hún var ein fárra kvenna sem voru faraóar og frægasti kvenleiðtogi Egyptalands. „Mesta fornleifauppgötvun síðan grafhýsi faraósins Tutankhamons fannst 1922," segir yfirmaður fornleifamála í Egyptalandi.

Með því að nota DNA rannsóknir og forna tönn telja vísindamenn sig geta staðfest að múmía sem fannst fyrir um öld síðan sé Hatshepsut. Hún var ein fárra kvenfaraóa Egyptalands og einn dularfyllsti leiðtoginn.

Múmían fannst í grafreitnum „Dalur konunganna" 1903. Þar var hún ónafngreind í áratugi þar til fyrir um tveimur mánuðum síðan þegar hún var flutt á safn í Kaíró til rannsókna, að sögn Zahi Hawass yfirmanns fornleifamála í Egyptalandi.

Hann segist 100% viss um að múmían sé Hatshepsut. Ásamt DNA rannsóknum eru rannsóknir á tönn, sem fannst í boxi með öðrum líffærum drottningarinnar, lykillinn að því að greina múmíuna sem Hatshepsut. Tönnin passar fullkomlega í kjálka múmíunnar.

Talið er að Hatshepsut hafi stolið krúnunni frá ungum stjúpsyni sínum, Thutmose þriðja. Hún réði ríkjum í um 21 ár, það er lengsta valdatíð fornra egypskra drottninga, sem lauk 1453 fyrir Kristsburð.

.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×