Erlent

Fjórveldin funda um framtíð Mið-Austurlanda

Jónas Haraldsson skrifar
MYND/AFP
Málamiðlunarkvartettinn svokallaði ætlar sér að hittast í Jerúsalem til þess að meta ástandið á svæðinu.

Kvartettinn samanstendur af Evrópusambandinu, Rússlandi, Sameinuðu þjóðunum og Bandaríkjunum. Fulltrúar hans hafa ekki hist eftir að Hamas samtökin tóku völdin á Gaza svæðinu. Almennt er búist við því að rætt verði um hvort að skipa eigi Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, sem sérstakan erindreka hópsins í Mið-Austurlöndum.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur þegar lýst yfir stuðningi við þá hugmynd. Rússar hafa ekki tekið jafn vel í hugmyndina en ekki er talið líklegt að þeir beiti sér gegn henni. Ísraelar eru jákvæðir í garð hans en Palestínumenn efast meira. Blair hefur oft sagt að hann vilji beita sér fyrir friðarsamkomulagi á milli Ísraels og Palestínu.
MYND/AFP
Hamas samtökin ítrekuðu í gær að þau vildu viðræður við Fatah um framtíð Gaza og Vesturbakkans. Mahmoud Abbas, forseti Palestínu og leiðtogi Fatah hreyfingarinnar, hefur hafnað þeirri beiðni alfarið. Á sama tíma vinnur alþjóðasamfélagið að því að einangra Hamas og aðstoða Fatah. Ehud Olmert, forsætiráðherra Ísraels, sagði í gærkvöldi að stjórn hans væri tilbúin að leysa úr haldi 250 meðlimi Fatah hreyfingarinnar.

Ummæli Olmert komu á leiðtogafundi í Egyptalandi sem hófst í gær. Þar fundar Abbas með forsætiráðherra Ísraels, forseta Egyptalands og konungi Jórdaníu. Fundurinn á að sýna fram á samstöðu með málstað Abbas.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×