Sport

Tyson Gay náði besta tíma ársins

Tyson Gay
Tyson Gay NordicPhotos/GettyImages

Sprettlauparinn Tyson Gay náði besta tíma ársins í 100 metra hlaupi á bandaríska meistaramótinu í frjálsum íþróttum í nótt þegar hann kom í mark á 9,84 sekúndum og sigraði með yfirburðum. Gay kom í mark 0,23 sekúndum á undan næsta manni þrátt fyrir mótvind og eru þetta mestu yfirburðir sigurvegara á mótinu í þrjá áratugi.

Asafa Powell og Justin Gatlin eiga saman heimsmetið í greininni sem er 9,77 sekúndur, en þó má vel vera að Gatlin verði strikaður út af metalista eftir að hann féll á lyfjaprófi í fyrra. Powell hefur hinsvegar hlaupið þrisvar á heimsmetstímanum á ferlinum.

Tími Gay í nótt var persónulegt met og náði hann því þrátt fyrir að vera með mótvind upp á 0,5 metra á sekúndu. Hann hefur hlaupið á 9,76 og 9,79 sekúndum í ár - en þeir tímar fengust ekki staðfestir vegna meðvinds. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×