Erlent

Walid Eido grafinn í dag

Frá jarðarförinni í dag.
Frá jarðarförinni í dag. MYND/AFP
Jarðarför líbanska þingmannsins Walids Eido fór fram í Líbanon í morgun. Hann var harður andstæðingur Sýrlendinga og stefnu þeirra gagnvart Líbanon. Eido var jafnframt sjötti líbanski þingmaðurinn, sem er á móti Sýrlandi, sem myrtur er á tveimur síðustu árum. Bankar, verslanir og skólar eru lokaðir í dag. Eido var grafinn í Beirút, innan við sólarhring eftir að hann lést en það er samkvæmt múslimskri hefð.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði að það væri greinilegt mynstur í dauðsföllum þingmanna mótföllnum Sýrlandi. Hann sagði öll fórnarlömbin eiga það sameiginlegt að hafa reynt að koma í veg fyrir sýrlensk áhrif í líbönskum stjórnmálum. Eftir lát Eido eru þeir sem eru á móti sýrlenskum áhrifum með tæpan meirihluta á þingi, eða þrjá þingmenn.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, sagði sprengjuárásina sem Eido lést í óásættanlega. Fjarskiptaráðherra Líbanon, Marwan Hamadeh, sagði Sýrland reyna að gera út um stjórnarmeirihlutann með morðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×