Sport

Lamdi dómara í góðgerðaleik

AFP

Snókergoðsögnin umdeilda Alex Higgins er ekki hættur að koma sér í vandræði þó hann sé orðinn 58 ára gamall og sé í baráttu við krabbamein. Higgins var í gær rekinn úr keppni á góðgerðamóti fyrir unga snókerspilara eftir að hann kýldi dómara.

Higgins spilaði sérstakan æfingaleik við fyrrum heimsmeistarann Jimmy White til að safna fé fyrir unga leikmenn, en brást við hinn versti þegar dómarinn vildi meina að hann hefði snert bláu kúluna með höndinni í einu skotinu. Við það truflaðist Higgins og kýldi dómarann í magann. Eftirlitsmenn og áhorfendur stukku til og náðu að komast í milli, en dómarinn var svo skelkaður að hann neitaði að halda áfram að dæma á mótinu.

Higgins er 58 ára gamall Íri og varð tvisvar heimsmeistari í snóker. Hann á í baráttu við krabbamein í hálsi og virðist ekki við góða heilsu. Árið 1986 var hann dæmdur í eins árs keppnisbann eftir að hann skallaði dómara á móti og var allan ferilinn iðinn við að koma sér í vandræði í keppnum. Vitni að atvikinu í gær sagði að Higgins hefði drukkið nokkrar kollur af Guinnes-bjór á milli ramma í leiknum við White.

Higgins sjálfur hefur sagt að atvikið hafi verið blásið upp úr öllu valdi og sást pollrólegur árita nýútkomna ævisögu sína "Í auga fellibylsins" skömmu eftir atvikið. Dómarinn hefur ekki kært árásina enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×