Erlent

50 ára ónotaður bíll grafinn upp

Óli Tynes skrifar
Þegar Plimminn var grafinn voru myndir teknar í svart/hvítu.
Þegar Plimminn var grafinn voru myndir teknar í svart/hvítu.

Þann 15. júní árið 1957 fagnaði borgin Tulsa í Oklahoma 50 ára afmæli sínu. Í tilefni dagsins var ákveðið að grafa ekta amerískt tímahylki í jörðu. Það skyldi grafið upp aftur þegar borgin ætti 100 ára afmæli. Ekta ameríska tímahylkið var náttúrlega bíll. Glænýr Plymouth Belvedere. Átta gata tryllitæki.

Og á föstudaginn 15. júní verður Tulsa 100 ára. Þá verður þessi fimmtíu ára gamli ónotaði bíll grafinn upp aftur. Honum var á sínum tíma pakkað eftir öllum kúnstarinnar reglum til þess að hann skemmdist ekki á hálfri öld neðanjarðar.

Ýmsir hlutir voru settir í bílinn áður en hann var grafinn. Eitthvað hafa menn verið í vafa um orkugjafa framtíðarinnar. Til vonar og vara var því settur 40 lítra bensínbrúsi í skottið, ásamt fimm lítrum af olíu. Einnig sígarettupakki, hárnálar og ógreidd stöðumælasekt.

Einhver heppinn bæjarbúi fær afhenta lyklana að Plimmanum. Íbúarnir fengu að giska á hver yrði íbúatala borgarinnar 15. júní 2007. Ágiskanirnar voru settar á míkró-filmu sem var grafin með bílnum. Sá sem kemst næst íbúatölunnim í dag er sigurvegari. Eða þá erfingjar hans, ef hann er sjálfur fallinn frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×