Golf

Frábær lokahringur hjá Birgi Leifi

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, lék lokahringinn á Opna austurríska mótinu í Vínarborg í dag á 67 höggum, eða 4 höggum undir pari. Hann er sem stendur í 18. sæti á samtals 8 höggum undir pari.

Birgir lék engan hring yfir pari í mótinu og verður það að teljast frábær árangur (70-71-68-67). Hann var fyrir mótið í 163. sæti á peningalistanum og ætti með þessum árangri að hækka sig um 15-20 sæti.

Birgir Leifur fékk aðeins einn skolla á hringnum og kom hann á fyrstu braut. Síðan fékk hann fimm fugla, á 3., 6., 8., 9. og 15. holu. Hann fékk samtals 17 fugla á 72 holum, 46 pör og 9 skolla. Ljóst er að þetta er næst besti árangur hans á Evrópumótaröðinni, en besti árangur hans er 11. sæti á Opna ítalska mótinu í Mílanó.

Þetta er tíunda mótið sem hann tekur þátt í á Evrópumótaröðinni í ár og hefur hann komist í gegnum niðurskurðinn á sjö þeirra. Hann var fyrir mótið í 163. sæti á peningalistanum, en eins og áður segir ætti hann að færast ofar eftir mótið í dag.

Sjá nánar á kylfingur.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×