Fótbolti

Beckham verður í hópnum hjá Real á morgun

NordicPhotos/GettyImages

Enski landsliðsmaðurinn David Beckham verður í leikmannahópi Real Madrid á morgun þegar liðið mætir Real Zaragoza í næstsíðustu umferð spænsku deildarinnar. Þar getur Real orðið spænskur meistari fari svo að erkifjendur þeirra í Barcelona tapi fyrir grönnum sínum í Espanyol.

Ljóst er að lið Real Madrid á ekki auðvelt verkefni fyrir höndum þegar það sækir Zaragoza heim, en heimamönnum hefur þó gengið einna best á útivelli í vetur og hefur liðið unnið 11 af 18 leikjum sínum þar í vetur. Zaragoza hefur einnig unnið 9 af síðustu 10 deildarleikjum sínum og hefur skorað 17 mörk í síðustu 5 leikjum. Real hefur reyndar einnig verið á góðu skriði með Ruud Van Nistelrooy í miklu stuði með 8 mörk í síðustu 6 leikjum.

Barcelona þarf nauðsynlega á sigri að halda gegn Espanyol á heimavelli en grannar þeirra eru enn í sárum eftir tap í úrslitaleik UEFA bikarsins. Liði Espanyol myndi eflaust ekki leiðast að skemma fyrir erkifjendum sínum og grönnum með því að sigra á Nou Camp.

Sevilla er í þriðja sæti deildarinnar og á enn fræðilega möguleika á titlinum og liðið sækir Mallorca heim á morgun. Sevilla hefur unnið 5 af síðustu 6 leikjum sínum, en Mallorca er reyndar eina liðið sem hefur unnið Sevilla á útivelli í allan vetur.

Real Madrid og Barcelona hafa 72 stig á toppi deildarinnar en Real verður alltaf meistari ef þau enda með jafnmörg stig því liðið hafði betur í innbyrðisviðureignum liðanna í vetur. Sevilla hefur 70 stig í þriðja sætinu. Leikir Zaragoza-Real Madrid og Barcelona-Espanyol verða báðir sýndir beint á rásum Sýnar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×