Erlent

Grunaður um að smita stúlkur viljandi af HIV

Vera Einarsdóttir skrifar
Maðurinn ákvað viljandi að nota ekki smokka.
Maðurinn ákvað viljandi að nota ekki smokka. MYND/Vísir

Breskur HIV smitaður maður sem búsettur er í Svíþjóð er grunaður um að hafa smitað ungar stúlkur af veirunni að ásettu ráði. Hann var handtekinn í dag í bænum Solna í Svíþjóð eftir ábendingar sem bárust lögreglu. Tvö tilfelli lágu að baki handtökunni og hefur hann viðurkennt að hafa stundað óvarið kynlíf með annarri stúlkunni. Ungu stúlkurnar gætu einnig hafa fært smitið áfram.

Lögreglan hefur grun um að mun fleiri stúlkur geti átt í hlut en hún hefur gert upptækan lista hjá manninum yfir 130 stúlkur sem hann hefur hitt á spjallsíðum á netinu. Á síðunum gekk hann undir nafninu Hot Boy. Samkvæmt heimildum Dagens Nyheter bauð hann stúlkunum að hitta sig á hótelherbergjum eða veitingastöðum og hafði síðan við þær samfarir án þess að segja þeim frá smitinu.

Maðurinn sem er búsettur í Stokkhólmi var skráður fyrir tveimur íbúðum í borginni og heimildir eru fyrir því að hann hafi skipulagt stefnumót víðsvegar um landið. Hann hefur ekki játað fleiri brot en lögreglan mun rannsaka þann lista sem hún hefur í höndunum. Maðurinn hefur verið dæmdur fyrir önnur brot.

Stúlkurnar sem eru smitaðar fá áfallahjálp og aðstoð innan sænska heilbrigðiskerfisins. Lögreglan í Svíþjóð hefur óskað eftir ábendingum frá öllum sem hafa haft samskipti við Hot Boy. Hún hefur komið á fót sérstökum tilkynningarsíma og fjöldi starfsmanna rannsakar málið.

Vefsíða sænska blaðsins Dagens Nyheter skýrði frá þessu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×