Erlent

Búist við deilum á G8 fundi

Guðjón Helgason skrifar

Búast má við að deilur Rússa og Bandaríkjamanna um eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Austur-Evrópu setji svip sinn á fund leiðtoga átta helstu iðnríkja heims sem hefst í Þýskalandi í dag. Gríðarleg öryggisgæsla er viðhöfð vegna heimsóknar helstu þjóðarleiðtoga.

Fundurinn - sem stendur fram á föstudag - er haldinn í strandbænum Heiligendamm nærri borginni Rostock í austurhluta Þýskalands. Gríðarleg öryggisgæsla er viðhöfð og ferðir að fundarstaðnum mjög takmarkaðar. Sextán þúsund lögreglumenn gæta tignu gestanna sem til fundarins koma og hefur nærri þriggja metra há og tólf kílómetra löng girðing verið reist til að varna mótmælendum aðkomu. Óttast er að hávær og jafnvel ofbeldisfull mótmæli verði í Rostock í dag og næstu daga, líkt og um síðustu helgi. Andstæðingar alþjóðavæðingar láti þar í sér heyra. Þeir byrjuðu að safnast saman nærri Heiligendamm í morgun og fór allt friðsamlega fram.

Meðal helstu mála sem rædd verða á fundi iðríkjanna eru loftlagsbreytingar en ríki Evrópusambandsins hafa þrýst á um nýjan alþjóðasamning um losun gróðurhúsalofttegunda sem getið leyst Kyoto-bókunina af hólmi. Bandaríkjamenn hafa neitað að setja mælanleg takmörk eða tímamörk en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mun á fundinum leggja áherslu á samþykkt verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um sem nemur fimmtíu prósentum frá mælingu 1990 fyrir árið 2050. Bush Bandaríkjaforseti kynnti sína áætlun í síðustu viku sem felur í sér niðurskurð sem verði markaður á næstu eina og hálfa árinu.

Þá er mjög líklegt að deilur vegna eldflaugavarnarkerfis Bandaríkjanna í Tékklandi og Póllandi setji svip sinn á fundinn. Valdímír Pútín, forseti Rússlands, hótaði því fyrr í vikunni að beina kjarnorkuvopnum Rússa að Evrópu ef áformin gengju eftir en Bush Bandaríkjaforseti reyndi í gær að róa hann. Leiðtogum Bretlands og Frakklands er ekki skemmt vegna málsins og hyggjast eiga opinskáar viðræður við Pútín um hótanir hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×