Körfubolti

Milljón fyrir miða á leik með Cleveland

Miðar á leik með LeBron James og félögum hafa aldrei áður verið svo eftirsóttir
Miðar á leik með LeBron James og félögum hafa aldrei áður verið svo eftirsóttir NordicPhotos/GettyImages

Það er ekki tekið út með sældinni að vera stuðningsmaður Cleveland Cavaliers þessa dagana ef marka má fréttir af miðasölu fyrir heimaleiki liðsins gegn San Antonio í lokaúrslitum NBA sem hefjast annað kvöld. Dýrustu miðarnir á leikina í Cleveland kosta 940,000 krónur.

Cleveland fær að minnsta kosti tvo heimaleiki í einvíginu við San Antonio og fara þeir fram dagana 12. og 14. júní nk. Löngu er uppselt á leikina tvo en hluti þeirra miða sem voru á lausu voru settir í sérstakan lottópott þar sem dregið verður úr hópi rúmlega 20,000 manns sem óskuðu eftir að fá miða. Almennt miðaverð á leiki í úrslitunum er frá 18-940,000 krónum.

Shawne Johnson er þrítugur stuðningsmaður Cavaliers og henni þykir miðaverðið full hátt fyrir hinn almenna borgara. "Þetta er eins og útborgun í hús eða bíl - venjulegt fólk hefur ekki efni á að kaupa svo dýra miða," sagði hún vonsvikin og lét sér duga að kaupa Cavaliers bol á 24 dollara og ætlar svo að vona það besta þegar dregið verður í miðalottóinu.

Einnig hafa verið útbúnir tilboðspakkar fyrir stuðningsmenn sem geta fengið miða á heimaleiki liðsins í úrslitunum gegn því að fjárfesta í ársmiðum á næsta ári og ekki er óalgengt að slík tilboð hljóði upp á um 2,5 milljónir króna. Nokkuð er um að þeir sem eiga miða á leiki í úrslitunum selji þá á uppboðum og ljóst er að sumir þeirra eiga eftir að græða vænar fúlgur. Einn stuðningsmaður Cleveland var svo óheppinn að kaupa tvo miða fyrir rúmlega 50,000 krónur sem reyndust síðar vera falsaðir. Lögrelgla hafði hendur í hári svindlarans.

Fyrsti leikur San Antonio og Cleveland í lokaúrslitum NBA verður á dagskrá annað kvöld klukkan eitt eftir miðnætti og verður sýndur beint á Sýn líkt og allir leikirnir í einvíginu. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×