Körfubolti

Þrjú lið í NBA ráða þjálfara

Steve Kerr
Steve Kerr NordicPhotos/GettyImages

Miklar hræringar hafa verið í þjálfaramálum í NBA deildinni á síðustu dögum og í gær staðfestu þrjú félög í deildinni nýja þjálfara til starfa. Þá bárust þær fréttir í nótt að Steve Kerr hafi náð samkomulagi við Phoenix Suns um að gerast forseti og framkvæmdastjóri félagsins.

Steve Kerr hóf feril sinn sem leikmaður með Phoenix á sínum tíma og á lítinn hlut í félaginu. Hann hefur undanfarið starfað sem sjónvarpsmaður hjá TNT sjónvarpsstöðinni, en hann lauk keppni í útsendingu gærkvöldsins og sást yfirgefa svæðið með síma á eyranu. Hann vildi ekki tjá sig mikið um þessar fréttir og sagðist ekki geta sagt neitt um það að svo stöddu. Ljóst er að hann getur ekki tekið við nýju starfi fyrr en hann klárar samning sinn við sjónvarpsstöðina sem gildir út úrslitakeppnina í ár.

Orlando Magic gekk í gær frá ráðningu þjálfarans Billy Donovan sem gerði lið Flórída Háskólans að meisturum tvö síðustu ár. Ekki er langt síðan Donovan skrifaði undir stóran samning við skólann, en Orlando bauð honum risasamning sem hann gat ekki hafnað og fréttir herma að hann fái allt að 27,5 milljónir dollara fyrir fimm ára samning. Hann tekur við af Brian Hill.

Marc Ivaroni var ráðinn þjálfari Memphis Grizzlies þar sem hann tekur við starfi Tony Barone. Ivaroni spilaði í 17 ár í deildinni og hefur verið aðstoðarþjálfari Phoenix Suns síðustu ár.

Indiana Pacers réði til sín þjálfarann Jim O´Brien sem tekur við af Rick Carlisle. O´Brien er reyndur þjálfari sem áður stýrði meðal annars Philadelphia 76ers og Boston Celtics. Þá réði Michael Jordan hjá Charlotte Bobcats til sín gamlan kunningja í Rod Higgins sem tekur við stöðu framkvæmdastjóra hjá félaginu, en þeir voru saman í herbúðum Washington Wizards á sínum tíma.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×