Körfubolti

Detroit - Cleveland í beinni í kvöld

Chauncey Billups hefur ekki verið með sjálfum sér í síðustu leikjum
Chauncey Billups hefur ekki verið með sjálfum sér í síðustu leikjum NordicPhotos/GettyImages

Fimmti leikur Detroit Pistons og Cleveland Cavaliers í úrslitum Austurdeildarinnar í NBA verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn á miðnætti í nótt. Staðan í einvíginu er jöfn 2-2 eftir að Cleveland lenti undir 2-0 en náði að jafna metin í heimaleikjum sínum tveimur. Það verður því mikið undir þegar liðin mætast í Detroit í kvöld.

Á meðan LeBron James hefur farið á kostum í liði Cleveland í síðustu tveimur leikjum, beinast líklega flestra augu að leikstjórnandanum Chauncey Billups í fimmta leiknum í kvöld. Maðurinn sem fengið hefur gælunafnið Herra Stórskot í liði Detroit hefur alls ekki náð sér á strik í einvíginu og fór illa að ráði sínu í fjórða leikhlutanum í leik fjögur.

Billups skoraði að vísu 23 stig og hirti 9 fráköst í fjórða leiknum, en hann brenndi af öllum þremur skotum sínum í fjórða leikhlutanum og gerði afdrifarík mistök þegar lið hans þurfti mest á honum að halda. Billups er með 5,5 tapaða bolta að meðaltali í einvíginu en sjálfur segist hann ekki hafa stórar áhyggjur þó Cleveland sé búið að jafna metin í einvíginu.

"Ég gerði nokkur mistök í leiknum en það kemur fyrir - ég er mannlegur. Ég er búinn að skemma fyrir mér í gegn um árin með því að hitta alltaf úr þessum skotum í lok leikja. Svona kemur fyrir - þetta gerir ekkert til. Staðan er að vísu 2-2, en við eigum tvo af þremur leikjanna á heimavelli ef til þess kemur," sagði Billups.

Detroit hefur verið í þeirri stöðu að lenda undir 3-2 í einvígi í úrslitakeppni síðustu þrú ár, en hefur samt komist áfram í þeim öllum. Það er til marks um seigluna sem er í þessu reynda liði, en nú er Cleveland sannarlega farið að banka á dyrnar eftir góða sigra í síðustu tveimur leikjum.

Sjötti leikur liðanna verður á laugardagskvöldið og verður hann einnig sýndur beint á Sýn. Ef kemur til sjöunda leiksins verður hann á dagskrá á mánudagskvöldið - allt í beinni á Sýn. Lokaúrslitin hefjast svo 7. júní þar sem annað þessara liða mætir San Antonio í fyrsta leik á útivelli. San Antonio er með heimavallarréttinn gegn báðum þessum liðum þar sem liðið var með betra vinningshlutfall í deildarkeppninni í vetur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×