Erlent

Friðargæsluliðar SÞ skiptu vopnum fyrir gull

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Pakistanskir friðargæsluliðar í Kongó. Ekki eru sömu friðargæsluliðarnir nú og árið 2005.
Pakistanskir friðargæsluliðar í Kongó. Ekki eru sömu friðargæsluliðarnir nú og árið 2005. MYND/AFP

Pakistanskir friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna í Kongó skiptu á vopnum fyrir gull við herskáa hópa sem þeim var ætlað að afvopna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. Kongósku herliðin áttu sök á verstu mannréttindabrotum á meðan borgarastríðið stóð yfir í landinu. Skiptin fóru fram árið 2005.

Rannsóknarhóp á vegum SÞ var ætlað að afla gagna um málið. Honum var hótað og hann hindraður í að vinna að málinu og hrökklaðist að lokum í burtu. Skýrsla hópsins um málið var þögguð niður innan samtakanna til að forðast pólitískt hneyksli.

Atburðirnir áttu sér stað í og við námubæinn Mongbwalu í norðausturhluta landsins. Pakistanski armur friðargæsluliða SÞ sá um að koma friði á en hörð átök höfðu átt sér stað milli Lendu og Hema ættbálkanna.

Eftir því sem vopnakaupin þróuðust kynntu pakistönsku friðargæsluliðarnir hermenn úr kongóska hernum fyrir skiptunum og kölluðu til indverska kaupmenn frá Kenýa.

Það var Richard Ndilu yfirmaður útlendingaeftirlitsins við Mongbwalu flugvöll sem fylltist grunsemdum seint á árinu 2005. Indverskur viðskiptamaður hafi komið til að dvelja í búðum pakistönsku friðargæsluliðanna.

Kongóski herinn aftraði lögreglustjóra svæðisins að skoða farm flugvélar sem grunur lék á að tengdist skiptunum.

Enn hefur rannsókn ekki átt sér stað og SÞ í New York neita að útskýra hvað gerðist.

Yfirvöld í Pakistan segja að þau hafi fyrst fengið pata af málinu fyrir örfáum dögum, en það verði skoðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×