Erlent

Börn í Írak þurfa meiri aðstoð

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir aðstæður írakskra barna gríðarlega alvarlegar. Helmingur þeirra fjögurra milljóna sem hafa flúið heimili sín vegna ástandsins í Írak eru börn. Stofnunin segir þau þurfa meiri aðstoð en alþjóðasamfélagið er nú fært um að veita. Hún hefur nú biðlað til aðildarþjóða að leggja fram fjármagn svo hægt sé að sjá börnunum fyrir bóluefnum, mat, hreinu vatni og menntun.

Clarie Hajaj, starfsmaður UNICEF í Írak, segir að ástandið sé orðið verulega slæmt. „Við erum ekki að bíða eftir því að ástandið versni eða að vara við því að það eigi eftir að versna. Það er nú þegar verulega slæmt." Samtökin vilja einnig að stjórnvöld í Sýrlandi og Jórdaníu geri betur við þau börn sem eru flóttamenn í þeim löndum.

Stofnunin segir að sú aðstoð sem börnum í Írak hafi þegar verið veitt sé góð. Meira sé þó þörf á að gera, sérstaklega þar sem hreint vatn er af skornum skammti og líkur á kólerufaraldri því að aukast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×