Erlent

Éta lifandi kýr gestum til skemmtunar

Guðjón Helgason skrifar

Starfsmenn dýragarða í Kína hafa orðið uppvísir af ómannúðlegri meðferð á dýrum. Birnir og apar eru látnir vinna erfiðisverk á meðan tígrisdýrum eru mötuð á lifandi dýrum, gestum til skemmtunar. Fjölskylduskemmtun segja rekstraraðilar.

Gestir í Harbin safarígarðinum í Norður-Kína bíða spenntir í rútunum sem aka þeim inn í miðjann garðinn. Þar er þeim lagt í hring. Hópur síberíutígra bíða þar og þegar þeir sjá bláa flutningabílinn nálgast vita þeir að komið er að matmálstíma. Niður pallinn kemur kýr. Hún á sér einskis ills von þegar tígrisdýrin stökkva á hana og byrja að rífa hana í sig.

Í sínu náttúrulega umhverfi veiða síberíutígrisdýrin ekki í hópum og gera útaf við bráð sína á svipstundu. Hér tekur það hins vegar dágóða stund að ganga að kúnni dauðri enda tígrisdýrin ekki rekin áfram af svengd heldur eru þau ofalinn. Þetta er því leikur í augum þeirra, allt sett á svið fyrir gestina og þessu lýst sem fjölskylduskemmtun.

Tígrisdýrin fá einnig að háma í sig lifandi endur og kjúklinga. Gestir geta keypt kjúkling, veifað honum við trýni tígrisdýrs og ögrað því. Síðan er kjúklingnum troðið í hólf þaðan sem trígrisdýrið getur rifið hann í sig.

Aðfarir sem þessar virðast algengar í dýragörðum í Kína. Sex hundruð kílómetrum sunnar, í Geena, er lítill björn látinn draga bíl tvisvar á dag - og ekki virðist það reynast honum sérlega auðvelt. Dýraverndunarsinnar hafa vakið máls á meðferð dýranna, sér í lagi nú þegar augu alheimsins beinast að Kína á næsta ári þegar sumar Ólympíuleikarnir verða haldnir þar. Þeir segja dýrin barin áfram og dýragarðana einna helst líkjast geðveikrahælum fyrir dýr.

En á meðan dýraverndunarsinnar hreyfa mótmælum halda gestir í Harbin safarígarðinun áfram að fylgjast með dauðastríði kýrinnar - og áður en langt um líður verður önnur komin í pallbílinn og annar hópur gesta mættur að fylgjast með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×