Körfubolti

NBA: Þrír leikmenn í bann

Hér má sjá mynd af átökunum í leik Spurs og Suns á mánudagskvöldið
Hér má sjá mynd af átökunum í leik Spurs og Suns á mánudagskvöldið NordicPhotos/GettyImages

Handalögmál leikmanna Phoenix og San Antonio í leik liðanna í úrslitakeppni NBA í fyrrakvöld höfðu alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir liðin. Robert Horry, leikmaður San Antonio var í kvöld dæmdur í tveggja leikja bann og þeir Amare Stoudemire og Boris Diaw hjá Phoenix í eins leiks bann.

Uppúr sauð á lokakaflanum í fjórða leik liðanna í San Antonio á mánudagskvöldið þegar Robert Horry hjá San Antonio braut illa á Steve Nash hjá Phoenix. Horry fær tveggja leikja bannið fyrir villuna á Nash og fyrir að gefa mótherja sínum Raja Bell olnbogaskot í átökum eftir atvikið. Þeir Stoudemire og Diaw gerðu ekki annað en að standa upp af varamannabekknum og ganga eftir hliðarlínunni þegar átökin blossuðu upp - en í reglunum segir skýrt að ef menn fari af varamannabekk og inn á völlinn í átökum - þýði það eins leiks bann.

Ljóst er að leikbönnin eiga eftir að setja svip sinn á það sem eftir er af einvíginu og kemur mun verr niður á liði Phoenix - þó það væru ekki leikmenn liðsins sem áttu upptökin af átökunum. Stoudemire er algjör lykilmaður í liði Phoenix og það verður ekki auðvelt fyrir liðið að fylla skarð hans og Diaw í næsta leik í einvíginu sem fer fram í Phoenix.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×