Erlent

Mátti dúsa í dýflissu

Guðjón Helgason skrifar

Þrítug tékknesk kona á yfir höfði sér átta ára fangelsisdóm fyrir að hafa hlekkjað átta ára son sinn nakinn niður og lokað hann í kjallara á heimili þeirra. Tilviljun ein réð því að nágrannar konunnar fundu strákinn.

Nágrannar konunnar keyptu sér fyrr í vikunni sérstakar eftirlitsmyndavélar til að koma fyrir á heimili sínu, að þeirra sögn vegna þess að húsmóðirin ætti von á barni og myndavélarnar yrðu notaðar til að hafa auga með hvítvoðungnum þegar hann eða hún kæmi í heiminn.

Myndavélarnar fóru hins vegar yfir á aðra tíðni en þær áttu að nema og hjónin sáu þá myndir af átta ára strák nágrannakonunnar. Hann sat þar nakinn í járnum í dimmu litlu herbergi. Lögrega fann dreginn í kjarlaranum og hafði hann orðið fyrir miklu vökvatapi. Herbergið var tæpir tuttugu fermetrar að stærð gluggalaust og illa lyktandi. Móðir hans hafði lokað hann þar inni hvað eftir annað á hálfs árs tímabili að því er virðist fyrir léttvæg strákapör.

Drengurinn er heyrnaskertur. Hann fékk hvorki vott né þurrt meðan hann mátti dúsa í dýflissunni og þess fyrir utan var honum gert erfitt að eiga eðlileg samskipti við önnur börn. Drengurinn hefur nú að vonum verið tekinn frá móður sinni og er í gæslu yfirvalda. Konan á nú yfir höfði sér átta ára fangelsi fyrir athæfi sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×