Golf

Birgir Leifur upp um 52 sæti á peningalistanum

Spánverjinn Gonzalo Fernandez-Castano sigraði á Opna ítalska mótinu í dag eftir bráðabana við Markus Brier frá Austurríki. Þeir léku báðir þrjá hringi á 16 höggum undir pari. Þeir léku 18. brautina tvisvar og í síðara skiptið hafði Castano betur og fékk um 25 milljónir króna í verðlaunafé fyrir fyrsta sætið. Brier fór heim með 16 milljónir.

Birgir Leifur Hafþórsson hafnaði í 11. sæti, á 13 höggum undir pari, sem er besti árangur hans til þess á Evrópumótaröðinni. Hann fékk 2,5 milljónir króna í sinn hlut, sem er hæsti tékki sem hann hefur tekið á móti fyrir árangur í golfmóti. Hann fór upp um 52 sæti á peningalistanum og er nú kominn í 163. sæti, en var í 215. sæti fyrir mótið. Til að halda keppnisrétti sínum á mótaröðinni á næsta ári þarf hann að vera á meðal 115 efstu á listanum í lok keppnistímabilsins.

Birgir Leifur hélt strax eftir mótið í Mílanó heim til Lúxemborgar þar sem hann hitti fjölskyldu sína, en næsta mót fer fram á Spáni og hefst á fimmtudag.

Frétt af Kylfingur.is 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×