Körfubolti

New Jersey mætir Cleveland

Richard Jefferson skorar hér sigrukörfuna gegn Toronto í nótt
Richard Jefferson skorar hér sigrukörfuna gegn Toronto í nótt NordicPhotos/GettyImages

Í nótt varð ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA deildinni eftir að New Jersey vann nauman sigur á Toronto 98-97 í sjötta leik liðanna. Richard Jefferson skoraði sigurkörfu Nets á síðustu sekúndum leiksins og stal svo boltanum af Toronto liðinu í síðustu sókn liðsins. New Jersey vann einvígið 4-2.

Jefferson var stigahæstur hjá New Jersey með 24 stig, Vince Carter skoraði 21 stig en hitti aðeins úr 6 af 19 skotum sínum utan af velli. Jason Kidd skoraði 18 stig, gaf 15 stoðsendingar og hirti 8 fráköst - og var með þrefalda tvennu að meðaltali í einvíginu. Þetta er í annað skipti sem Kidd nær þessum áfanga í seríu í úrslitakeppninni, en aðeins Magic Johnson og Wilt Chamberlain hafa leikið það eftir. Kidd skoraði 14 stig, gaf 13,2 stoðsendingar og hirti 10 fráköst að meðaltali í leik í einvíginu.

Chris Bosh skoraði 24 stig, hirti 7 fráköst og gaf 9 stoðsendingar hjá Toronto, en olli annars vonbrigðum með frammistöðu sinni í einvíginu. TJ Ford skoraði 19 stig af varamannabekknum hjá Toronto og Andrea Bargnani skoraði 17 stig. Toronto liðið var óheppið með meiðsli fyrir og á meðan einvíginu stóð, en ljóst er að framtíð liðsins er björt og fæstir reiknuðu með því að liðið kæmist í úrslitakeppnina í vor.

Nú er því ljóst að það verða annars vegar Detroit og Chicago og hinsvegar Cleveland og New Jersey sem mætast í undanúrslitum Austurdeildarinnar. Fyrsti leikurinn hjá Cleveland og New Jersey verður á sunnudaginn en fyrsti leikur Detroit og Chicago er í kvöld - laugardagskvöld - og verður hann sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni klukkan 23:00. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×