Erlent

Bandaríkjamenn hunsuðu Breta í grundvallarákvörðunum

Óli Tynes skrifar
Bretar vildu að íraski herinn tæki við öryggisgæslu í landinu.
Bretar vildu að íraski herinn tæki við öryggisgæslu í landinu. MYND/AP

Bretar voru algerlega á móti því að leysa upp íraska herinn og reka opinbera starfsmenn úr embætti. Bandaríkjamenn hunsuðu hinsvegar þessar skoðanir. Breta grunar að Dick Cheney, varaforseti hafi staðið á bak við það. Fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands segir að þeir hafi verið furðu lostnir yfir sumum ákvörðunum Bandaríkjamanna.

Það er nokkuð samdóma álit fréttaskýrenda í dag að það hafi ekki verið skynsamlegt að reka 350 þúsund vopnaða íraska hermenn heim til sín og setja þá á atvinnuleysisskrá. Það gerðu Bandaríkjamenn árið 2003. Síðan hefur ofbeldi farið sívaxandi. Bretar vildu endurþjálfa íraska herinn og láta hann taka við öryggisgæslu í landinu.

Bandaríkjamenn ráku sömuleiðis alla opinbera starfsmenn sem voru í Baath flokki Saddams Hussein. Við það hrundu innviðir embættismannakerfisins, með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Geoffrey Hoon, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands segir í viðtali við breska blaðið Guardian í dag að bresk stjórnvöld hafi anmælt þessum fyrirætlunum harðlega, en ekki haft erindi sem erfiði.

Hoon segir að Tony Blair hafi talað við Bush, sjálfur hafi hann talað við Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra og Jack Straw, utanríkisráðherra hafi talað við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Svo hafi komið allt önnur ákvörðun en talað hafi verið um. "Við spurðum sjálfa okkur hverju við hefðum eiginlega gleymt," segir Hoon í viðtalinu. "Ég held að við höfum gleymt Dick Cheney."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×