Erlent

Evrópusambandið og Bandaríkin funda

Angela Merkel, George W. Bush og Jose Manuel Barroso sjást hér ganga til fréttamannafundar í Rósagarðinum í dag.
Angela Merkel, George W. Bush og Jose Manuel Barroso sjást hér ganga til fréttamannafundar í Rósagarðinum í dag. MYND/AFP

Evrópusambandið og Bandaríkin voru á einu máli um að loftslagsbreytingar væru forgangsmál og George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði að hann þyrfti að sannfæra Vladimir Putin, forseta Rússlands, um nauðsyn eldflaugavarnarkerfis í Evrópu. Þetta kom fram á fundi í Hvíta húsinu í dag. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og George W. Bush sátu fundinn.

Á honum kom líka fram að leiðtogarnir þrír væru ákveðnir í því að ná árangri í Doha-viðræðunum svokölluðu. Þá kom einnig fram að þrýst yrði á Írana til þess að afneita kjarnorkuvopnagerð.

Bush sagði enn fremur að ef Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, myndi rekast á utanríkisráðherra Írana á ráðherrafundi í Egyptalandi síðar í vikunni, myndi hún ítreka boð Bandaríkjamanna um viðræður ef Íranar hættu auðgun úrans.

Þetta var fyrsta heimsókn Merkel til Bandaríkjanna síðan Þýskaland tók við forsæti í Evrópusambandinu. Barroso, Bush og Merkel voru öll sammála um að fundurinn hefði verið góður og að árangur hefði náðst á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×