Erlent

Umdeild kosning til Tyrklandsforseta fyrir dóm

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Næstum milljón mótmælendur söfnuðust saman á götum Istanbul.
Næstum milljón mótmælendur söfnuðust saman á götum Istanbul. MYND/AFP

Umdeilt fyrirkomulag til forsetakosninga í Tyrklandi mun koma til kasta stjórnskipulegs dómstóls í landinu. Fyrirkomulagið er sagt etja veraldarsinnum gegn ráðandi stjórnmálaflokki Íslamista. Rétturinn er nú að skoða málamiðlun frá stjórnarandstöðunni um að hætta við forsetakosninguna.

Tyrkneski gjaldmiðillinn hefur fallið vegna ótta um að herinn muni grípa í taumana. Yfirlýsing hersins í þá veru hefur valdið taugatitringi í landinu. Þetta er haft eftir fréttaritara BBC í Tyrklandi á fréttavef þeirra.

Hátt í milljón mótmælenda gekk um götur Istanbul í gær gegn vali á utanríkisráðherranum Abdullah Gul sem forsetaefni. Þeir kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar sem þeir óttast leiði þjóðina í átt til íslamskra stjórnarhátta. Forsætisráðherra landsins Recep Tayyip Erdogan tilnefndi Abdullah eftir fjölmenn mótmæli gegn því að hann byði sig sjálfur fram sem forsetaefni.

Eiginkona Abdullah gengur með höfuðklút, sem er mjög umdeilt í Tyrklandi. Utanríkisráðherrann segist samt ekki ætla að draga framboð sitt til baka. Forsætisráðherrann mun flytja sjónvarpsávarp til þjóðarinnar vegna málsins seinna í dag.

Verði hætt við forsetakosninguna er ljóst að fljótlega verður blásið til alþingiskosninga í landinu.

Stjórnin hefur notið stuðnings um þriðjungs landsmanna. Mikil spenna hefur ríkt að undanförnu milli hennar og hers landsins sem sakar stjórnvöld um að vera hliðholl íslömskum öflum í samfélaginu. Ríkisstjórnin hefur meðal annars reynt að fá aflétt banni við því að konur noti höfuðklúta í skólum og opinberum skrifstofum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×