Körfubolti

Bjartsýni í herbúðum Miami

Alonzo Mourning vill ekki meina að Miami sé í vandræðum þó liðið hafi tapað fyrstu tveimur leikjunum gegn Chicago
Alonzo Mourning vill ekki meina að Miami sé í vandræðum þó liðið hafi tapað fyrstu tveimur leikjunum gegn Chicago NordicPhotos/GettyImages

NBA meistarar Miami örvænta ekki þó liðið sé komið 2-0 undir í einvíginu við Chicago Bulls í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir stórt tap í gærkvöldi. Leikmenn liðsins eru flestir með gríðarlega reynslu og vilja meina að mikið sé eftir af einvíginu.

"Ég hef verið að spila í úrslitakeppni í langan tíma og við höfum allir lent í þessu áður," sagði varamiðherjinn Alonzo Mourning við blaðamenn eftir leikinn. Hann var eini maðurinn í liði Miami sem var sýnilega svekktur þegar leikmenn gengu til búningsherbergja eftir að vera burstaðir af frísku liði Chicago í gær - en hann var rólegri þegar hann veitti viðtal eftir leikinn.

"Nú er staðan 2-0 fyrir Chicago og þið (blaðamenn) getið skrifað það sem þið viljið. Þið verðið að gera það sem þið eigið að gera og skrifa um að við séum í vandræðum. Það er það sem fólk vill heyra, en þegar öllu er á botninn hvolft, eru það við sem erum meistararnir og liðið sem fyrr vinnur fjóra leiki fer áfram í næstu umferð. Það hefur enn ekki gerst og nú verðum við að sjá til þess að verja heimavöllinn okkar áður en við tökum næsta skref. Talaðu við mig eftir að við töpum á heimavelli - þá skal ég viðurkenna að við séum í vandræðum," sagði Mourning og glotti. Hann var ekki jafn hress þegar hann gekk af velli í gærkvöld og sagði myndatökumanni að "drulla sér frá."

Shaquille O´Neal var ekki á þeim buxunum að brosa eftir tapið í gær. "Þeir yfirspiluðu okkur í kvöld og fyrir því eru engar afsakanir," sagði O´Neal og var í framhaldi af því spurður hvað væri það versta sem lið sem er 2-0 undir gæti gert. "Að leyfa neikvæðum hugsunum að brjótast fram," sagði tröllið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×