Körfubolti

Dallas og San Antonio töpuðu óvænt

Allen Iverson og Carmelo Anthony eru tveir af betri leikmönnum deildarinnar.
Allen Iverson og Carmelo Anthony eru tveir af betri leikmönnum deildarinnar. MYND/Getty

Deildarmeistarar Dallas og firnasterkt lið San Antonio töpuðu óvænt fyrstu leikjum sínum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar á heimavelli í nótt. San Antonio þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Denver, 95-89, þar sem Allen Iverson og Carmelo Anthony fóru á kostum, og Dallas steinlá fyrir Golden State, 97-85.

Byron Davis átti frábæran leik og skoraði 33, tók 14 fráköst og gaf 8 stoðsendingar stig fyrir Golden State í leiknum í nótt, en úrslitin komu körfuboltaspekingum í opna skjöldu enda flestir spáð því að rimman yrði ein sú mest óspennandi í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Ljóst er hins vegar að Golden State ætlar ekki að gefa sterkasta liðið deildarinnar í vetur tommu eftir.

"Strákarnir sögðu við mig að ég yrði að taka af skarið. Ég var vel stemmdur og náði að finna taktinn. Og þessi taktur hélst út leikinn," sagði Davis eftir leikinn.

Josh Howard skoraði 21 stig og hirti 13 fráköst fyrir Dallas, sem hitti aðeins úr 35% skota sinna utan af velli.Verstur allra var Þjóðverjinn Dirk Nowitzki, sem hitti úr 4 af 16 skotum sínum. Hann skoraði 14 stig og tók 12 fráköst.

Leikmenn San Antonio réðu ekkert við stjörnur Denver-liðsins, þá Allen Iverson og Carmelo Anthony, í nótt. Iverson skoraði 31 stig og Anthony 30 stig og lögðu grunninn að sex stiga sigri, 95-89. Frábær leikkafli í 4. leikhluta skipti sköpum en í stöðunni 77-76 fyrir heimamenn náði Denver að skora 11 stig í röð og komast í 10 stiga forystu.

Tony Parker var skástur heimamanna og skoraði 19 stig en Tim Duncan náði sér ekki almenninlega á strik og munaði um minna. Duncan skoraði 14 stig og hirti 10 fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×