Erlent

Ferðalangur lendir utan úr geimi

Simonyi dreymdi um að komast út í geim frá 13 ára aldri. Nú er ferðalagið yfirstaðið.
Simonyi dreymdi um að komast út í geim frá 13 ára aldri. Nú er ferðalagið yfirstaðið.

Bandaríski milljarðarmæringurinn Charles Simonyi er kominn aftur til jarðar eftir tveggja vikna ferðalag út í geim. Ferðin kostaði hann 25 milljónir dollara, eða rúmlega einn og hálfan milljarð króna.

"Sólin skýn og veðrið er gott," sagði Simonyi skælbrosandi eftir að hann lenti í geimfari í eyðimörkinni í Kazakstan. Eftir lendinguna beit hann í stórt, grænt epli sem Kasakstan er frægt fyrir, eins og hefð mælir fyrir um meðal rússneskra geimfara.

Simonyi er ungverskur að uppruna. Þrettán ára vann hann keppni og fór til Moskvu til að hitta sovéskan geimfara. Hann varð ríkur á þátttöku sinni í að búa til tölvuforritin Word og Excel, sem finna má í stórum hluta einkatölva í heiminum.

Tveir "alvöru" geimfarar komu aftur til jarðar með Simonyi, Bandaríkjamaður og Rússi. Ferðin frá alþjóðlegu geimstöðinni tók þrjár klukkustundir.

Geimfararnir sem fóru með Simonyi í Soyuz fari út í geim 9. apríl verða í geimstöðinni næstu sex mánuði. Með þeim er Sunita Williams, bandarískur geimfari sem hefur verið í geimstöðinni síðan í desember.

Meðal þeirra sem tóku á móti Simonyi var Martha Stewart, sem tók viðtal við hann fyrir sjónvarpsþátt sem hún heldur úti í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×