Innlent

N1 siðlaus og ósvífin

N4, norðlenskt fjölmiðlafyrirtæki, kannar nú réttarstöðu sína vegna nýs nafns og firmamerkis N1, olíufélagsins Essó. Merkin eru sláandi lík segir stjórnarformaður N4. Hann segir athæfið bæði ósvífið og siðlaust.

Ný merki N1 voru sett upp á bensínstöðvar Essó - eða þjónustustöðvar eins og fyrirtækið kallar þær nú - í síðustu viku. Á Akureyri hefur starfað fjölmiðlafyrirtæki undir nafninu N4 síðan í maí á síðasta ári þegar fjögur norðlensk fyrirtæki í sjónvarpsrekstri, kvikmyndagerð og útgáfu sameinuðust undir einn hatt. Steinþór Ólafsson, stjórnarformaður N4, telur þetta ósvífið og siðlaust og segir merkin sláandi lík. Flestir gætu tekið undir það. Steinþór segir líkindin til þess falin að rugla neytendur og harmar að hagsmunir þeirra hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi við hönnun merkis N1. Steinþór bendir auk þess á að innan skamms hefjist dreifingar á N4 Sjónvarpi á landsvísu og því verði bæði firmamerkin áberandi um allt land. Því ætlar fyrirtækið að leita réttar síns í málinu.

Hermann Guðmundsson, forstjóri enneins, sagði í samtali við fréttastofu nú fyrir hádegið að stjórnendur hafi metið það svo að engin hætta væri á árekstrum. Merkin séu ólík, þeirra sé tígullaga en það norðlenska ferningslaga, stafagerðin ólík og auk þess sé starfsemi félaganna algerlega óskyld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×