Erlent

Varaforsetinn má bjóða sig fram

Jónas Haraldsson skrifar
Atiku Abubakar fær að bjóða sig fram á laugardaginn kemur.
Atiku Abubakar fær að bjóða sig fram á laugardaginn kemur. MYND/AFP
Hæstiréttur Nígeríu hefur úrskurðað að varaforsetinn Atiku Abubakar megi bjóða sig fram til forsetaembættisins á laugardaginn kemur. Yfirkjörstjórn í landinu hafði áður meinað honum að bjóða sig fram þar sem hann hefur verið ákærður fyrir spillingu.

Dómurinn á eftir að hafa töluverð áhrif á þróun mála í Nígeríu. Abubakar er að bjóða sig fram fyrir stærsta stjórnarandstöðuflokkinn í landinu. Aðeins eru fjórir dagar til kosninga, sem eiga að fara fram á laugardaginn kemur. Ef að kjörstjórnin ákveður að fara eftir úrskurði hæstaréttar er ljóst að skipta þarf um alla kjörseðla í landinu, um 61 milljón talsins.

Stjórnarandstöðuflokkar ætla sér að hittast í dag og ræða um hvort þeir muni fylkja sér að baki einum frambjóðanda til þess að auka líkurnar á sigri.

Mikill viðbúnaður er í Nígeríu vegna kosninganna. Lögregla og her eru í viðbragðsstöðu. Töluvert var um mótmæli um síðust helgi þegar ríkisstjórakosningar fóru fram í landinu en stjórnarandstaðan neitar að viðurkenna niðurstöður þeirra. Kosningaeftirlitsmenn sögðu óreglu hafa gætt í kosningunum. Stjórnarflokkurinn PDP vann sigur í meirihluta ríkja í þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×