Körfubolti

Detroit í góðri stöðu í Austurdeildinni

Racheed Wallace og félagar í Detroit eru besta liðið í Austurdeildinni í vetur.
Racheed Wallace og félagar í Detroit eru besta liðið í Austurdeildinni í vetur. MYND/Getty

Detroit vantar aðeins einn sigurleik til þess að tryggja sér heimavallarréttinn í úrslitakeppni Austurdeildar NBA-deildarinnar og þarf liðið nú aðeins einn sigur til viðbótar til að ná þeim áfanga. Liðið vann mikilvægan sigur á Cleveland í nótt, 87-82, þar sem góður varnarleikur á LeBron James lagði grunninn að úrslitunum.

LeBron skoraði "ekki nema" 20 stig í leiknum, en hittni hans var ekki góð auk þess sem hann tapaði boltanum fimm sinnum. Leikmenn Detroit tvídekkuðu hann í hvert sinn sem tækifæri gafst og þvinguðu þannig minni spámenn Cleveland til að taka ábyrgð í sóknarleiknum. Þá ábyrgð réðu þeir ekki við.

Richard Hamilton skoraði 21 stig fyrir Detroit og Antonio McDyess skoraði 18 stig og tók 13 fráköst.

Kobe Bryant skoraði 34 stig og gaf sjö stoðsendingar fyrir LA Lakers gegn Phoenix í nótt, en sú frammistaða dugði þó ekki til sigurs gegn Steve Nash og félögum. Phoenix sigraði með 115 stigum gegn 107 og skoraði Nash 25 stig auk þess sem hann gaf 11 stoðsendingar.

Meistarar Miami töpuðu fyrir Charlotte, 111-103, í leik sem markaði endurkomu stjörnuleikmannsins Dwayne Wade. Hann var þó aðeins skugginn af sjálfum sér eftir að hafa farið úr axlarlið fyrir nokkrum vikum en skoraði þó 12 stig og gaf 8 stoðsendingar á 27 mínútum. Alonzo Mourning var stigahæstur hjá Miami með 20 stig en hjá Charlotte skoraði Gerald Wallace 30 stig.

Toronto lagði Chicago af velli, 103-89, og á enn möguleika á að stela 2. sætinu í Austurdeildinni af Chicago. Ben Gordon skoraði 27 stig fyrir Chicago en Anthony Parker var með 27 stig fyrir Toronto.

Philadelphia lagði Atlanta, 109-104, og þá vann Houston góðan sigur á Sacramento, 112-106, þar sem Tracy McGrady var í miklu stuði og skoraði 40 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×