Körfubolti

Miami unnu Cleveland og San Antonio unnu Phoenix

Shaq fór fyrir sínum mönnum
Shaq fór fyrir sínum mönnum Getty Images

Tveir risaslagir voru í NBA-deildinni í nótt. Meistarar Miami Heat mættu LeBron James og félögum í Cleveland og höfðu sigur, 94-90 í framlengdum leik. Miami léku án Dwayne Wade og munar heldur betur um minna. Tröllið Shaq O'Neal var drjúgur og setti 20 stig og tók 8 fráköst og Antoine Walker var einnig í stuði og setti 20 stig á þeim 25 mínútum sem hann spilaði. Annars var það liðsheildin sem skóp sigur Miami.

Sem fyrr var LeBron James allt í öllu hjá Cleveland, hann skoraði 35 stig, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar en það dugði ekki til. Bæði lið eru búin að tryggja sér þátttökurétt í úrslitakeppninni en slást innbyrðis um heimaleikjaréttinn.

Sem stendur er Miami í fjórða sæti og Cleveland í fimmta í Austurdeildinni en Cleveland á enn ágæta möguleika á að fara upp fyrir meistarana.

Í hinum leik næturinnar unnu San Antonio Spurs granna sína í Phoenix Suns með 92 stigum gegn 85 eftir að hafa lagt grunninn að sigri í þriðja leikhluta sem þeir unnu með 13 stigum, en í þeim leikhluta fór Frakkinn Tony Parker á kostum og skoraði 15 af sínum 35 stigum.

Parker var stigahæstur í liði Spurs en á eftir honum komu þeir Tim Duncan með 22 stig og Michael Finley með 19. Báðir tóku þeir 10 fráköst eins og Francisco Elson. Hjá Suns dreifðist skorið meira en Steve Nash var stigahæstur með 20 stig auk þess að gefa 7 stoðsendingar. Shawn Marion skoraði 17 og tók 13 fráköst og Amare Stoudemire skoraði 15 stig.

Phoenix eru í öðru sæti Vesturdeildarinnar á eftir Dallas sem hafa því sem næst tryggt sér efsta sætið. San Antonio eru í þriðja sæti og geta enn náð Phoenix en þegar bæði lið eiga sjö leiki eftir hafa Phoenix unnið tveimur leikjum meira.

Það verður nóg um að vera í NBA-deildinni í kvöld en þá fara fram 13 leikir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×