Fótbolti

Tottenham getur jafnað met í kvöld

Dimitar Berbatov hefur verið sjóðandi heitur í UEFA keppninni í vetur
Dimitar Berbatov hefur verið sjóðandi heitur í UEFA keppninni í vetur NordicPhotos/GettyImages

Fyrri leikirnir í fjórðungsúrslitum Evrópukeppni félagsliða fara fram í kvöld. Leikur Sevilla og Tottenham verður sýndur beint á Sýn Extra og þar getur enska liðið jafnað met Parma og Gladbach með níunda sigri sínum í röð í keppninni. Útsending frá leiknum hefst klukkan 18:30.

Tottenham vann sigur í UEFA keppninni þegar hún var fyrst haldin árið 1972 og er nú að reyna að landa fyrsta titli sínum í keppninni síðan árið 1984. Tottenham hefur unnið alla 8 leiki sína í keppninni á þessari leiktíð og vann síðast Braga frá Portúgal í 16-liða úrslitunum.

"Þetta verður stærsti leikurinn á ferlinum fyrir nokkra af leikmönnum liðsins og okkur hlakkar mikið til að takast á við verkefnið. Vonandi tekst okkur að ná hagstæðum úrslitum fyrir síðari leikinn á heimavelli," sagði Martin Jol knattspyrnustjóri, en hans manna bíður svo leikur við Chelsea í úrvalsdeildinni strax á laugardaginn. Mikil meiðsli eru í herbúðum Tottenham og hefur það til að mynda aðeins einn leikfæran miðvörð fyrir leikinn á Spáni í kvöld.

Sevilla hefur átt frábært tímabil á Spáni í vetur og er í baráttu á þremur vígstöðvum. Liðið er núverandi Evrópumeistari félagsliða og leitast nú vi að verða aðeins annað liðið til að verja titil sinn í keppninni. Liðið er líka í öðru sæti í spænsku deildinni og er komið í undanúrslitin í Konungsbikarnum á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×