Erlent

Segir Gonzales hafa tekið þátt

Mikil pressa er nú á Alberto Gonzales, aðalsaksóknara Bandaríkjanna.
Mikil pressa er nú á Alberto Gonzales, aðalsaksóknara Bandaríkjanna. MYND/AFP
Kyle Sampson, fyrrum starfsmannastjóri Alberto Gonzales, aðalsaksóknara Bandaríkjanna, sagði í dag að Gonzales hefði tekið þátt í ákvörðunum stjórnvalda um að reka átta saksóknara úr starfi. Þetta kom fram í vitnisburði hans fyrir þingnefnd í dag. Gonzaels hafði áður sagt að hann hefði ekki komið nálægt því.

Sampson sat fyrir beinskeyttum spurningum þingmanna í þó nokkrar klukkustundir án þess þó að gefa svör sem að gætu leitt til þess að Gonzales þyrfti að segja af sér. Algengasta svar Sampsons var „Ég man það ekki." en hann notaði það oftar en 40 sinnum við yfirheyrsluna.

Þingmenn segjast fullvissir um að eitthvað gruggugt hafi verið við brottrekstrana. Þeir benda meðal annars á að að í upphafi hafi því verið neitað að Gonzales hafi komið að málinu en nú sé komið í ljós að hann hafi vitað af því frá upphafi þess.

Forseti Bandaríkjanna skipar saksóknara ríkisins sjálfur og segir því að hann geti rekið þá að vild. Sampson hafði áður sagt að hann teldi að saksóknararnir átta hafi ekki staðið sig í starfi og því hafi þeir verið reknir. Hins vegar sé hægt að segja að þeir hafi ekki staðið sig í starfi ef þeir voru ekki sammála stefnumálum og forgangsröð forsetans.

Demókratar segja hins vegar að þeir hafi verið reknir þar sem að þeir hafi rannsakað of marga repúblikana og ekki nógu marga demókrata.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×