Körfubolti

Toronto - Orlando í beinni í kvöld

Dwight Howard treður hér með tilþrifum yfir Chris Bosh í leik liðanna þann 7. febrúar. Þeir félagar áttu báðir sína bestu leiki á ferlinum það kvöldið
Dwight Howard treður hér með tilþrifum yfir Chris Bosh í leik liðanna þann 7. febrúar. Þeir félagar áttu báðir sína bestu leiki á ferlinum það kvöldið NordicPhotos/GettyImages

Leikur Toronto Raptors og Orlando Magic í NBA deildinni verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Fjölvarpinu klukkan 23:00 í kvöld. Hér er á ferðinni athyglisverður slagur í Austurdeildinni þar sem tveir af bestu stóru mönnunum í deildinni kljást - þeir Chris Bosh og Dwight Howard.

Toronto hefur tapað tveimur leikjum í röð eftir fjögurra leikja sigurgöngu þar áður en liðið er eftir sem áður í fyrsta sæti Atlantshafsriðilsins. Toronto hefur unnið 36 leiki og tapað 31. Chris Bosh er stigahæsti leikmaður Kanadaliðsins með 22,7 stig að meðaltali í leik, en hann setti persónulegt met með 41 stigi þegar þessi lið mættust þann 7. febrúar sl. Toronto verður án Andrea Bargnani í kvöld og í næstu leikjum eftir að hann fékk botnlangakast í gær.

Orlando hefur ekki gengið vel á síðustu misserum en liðið vann þó einhvern besta sigur sinn á leiktíðinni á sunnudaginn þegar liðið stöðvaði níu leikja sigurgöngu meistara Miami Heat. Orlando vann þá örugglega 97-83 á útivelli og var það fyrsta tap Miami á heimavelli í 15 leikjum. Orlando er sem stendur í áttunda sæti Austurdeildarinnar og er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Miðherjinn Dwight Howard er aðalstjarna Orlando, en hann átti sinn besta leik á ferlinum líkt og Chris Bosh þegar liðin mættust 7. febrúar - en þá skoraði Howard 32 stig og hitti úr 13 af 14 skotum sínum utan af velli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×