Körfubolti

Kobe Bryant orðinn stigahæstur á ný

Kobe Bryant er aftur orðinn stigahæsti leikmaðurinn í NBA deildinni með 30 stig að meðaltali, en hann varð stigakóngur á síðustu leiktíð með fádæma yfirburðum
Kobe Bryant er aftur orðinn stigahæsti leikmaðurinn í NBA deildinni með 30 stig að meðaltali, en hann varð stigakóngur á síðustu leiktíð með fádæma yfirburðum NordicPhotos/GettyImages

Kobe Bryant er nú kominn með hæsta meðaltalið í stigaskorun í NBA deildinni í fyrsta skipti í vetur eftir að hann skoraði 115 stig í síðustu tveimur leikjum. Carmelo Anthony hjá Denver hafði verið stigahæstur í deildinni síðan 18. nóvember, en nú er Bryant kominn upp í 30 stig að meðaltali í leik á meðan Anthony er með 29,8 stig að meðaltali.

"Við höfum ákveðið að láta Kobe vera grimmari í stigaskorun fyrr í leikjunum framvegis í stað þess að hann bíði með það þangað til í síðari hálfleiknum eins og verið hefur til þessa. Við vildum prófa þessa aðferð sem við höfum verið að beita í vetur, en okkur gafst bara ekki tími til að fullkomna hana," sagði Phil Jackson þjálfari Lakers.

"Ég hef ákveðið að vera dálítið grimmari á báðum endum vallarins og það er mikilvægt fyrir mig að sýna öðrum leikmönnum liðsins hvað til þarf þegar við erum komnir á þennan tímapunkt á tímabilinu," sagði Bryant og vísaði til þess að nú fer að styttast í úrslitakeppnina.

"Annars gerir endurkoma þeirra Lamar Odom og Luke Walton lífið miklu auðveldara fyrir mig, því þeir eru útsjónarsamir og góðir sendingamenn og endurkoma þeirra í liðið gerir það að verkum að lið geta ekki einblínt jafn mikið á að stöðva mig í sóknarleiknum," sagði Bryant.

Gilbert Arenas hjá Washington Wizards er þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar með 28,9 stig að meðaltali, Dwyane Wade hjá Miami fjórði með 28,8 stig og Allen Iverson hjá Denver kemur fjórði með 28 stig.

Kevin Garnett hjá Minnesota er efstur í fráköstum með 12,6 að meðaltali, Tyson Chandler hjá New Orleans annar með 12,4 og Dwight Howard hjá Orlando hirðir að meðaltali 12,1 frákast í leik. Fjórði er Emeka Okafor hjá Charlotte með 11,7 og Marcus Camby hjá Denver er með 11,6 fráköst.

Steve Nash hjá Phoenix er langefstur í stoðsendingum með 11,6 að meðaltali, Deron Williams hjá Utah er með 9,3, Jason Kidd hjá New Jersey er með 9,1 og Chris Paul hjá New Orleans gefur 8,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Marcus Camby hjá Denver ver flest skot í deildinni að meðaltali 3,16, Jermaine O´Neal hjá Indiana 2,89 og Josh Smith hjá Atlanta 2,85.

Ron Artest hjá Sacramento leiðir deildina í stolnum boltum með 2,23, Caron Butler hjá Washington er með 2,10 og Andre Iguodala hjá Philadelphia stelur 2,06 boltum í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×