Körfubolti

Enn ein sýningin hjá Kobe Bryant

Kobe Bryant keyrir hér framhjá Kevin Garnett hjá Minnesota í leik liðanna í nótt
Kobe Bryant keyrir hér framhjá Kevin Garnett hjá Minnesota í leik liðanna í nótt NordicPhotos/GettyImages

Kobe Bryant olli ekki aðdáendum sínum vonbrigðum frekar en fyrri daginn þegar hann skoraði 50 stig fyrir LA Lakers í 109-102 sigri liðsins á Minnesota í beinni útsendingu á NBA TV í nótt. Orlando stöðvaði sigurgöngu Miami og Houston burstaði Philadelpha með 50 stiga mun á útivelli.

Lakers missti niður 17 stiga forskot í síðari hálfleiknum gegn Minnesota en þá tók Bryant til sinna ráða á ný. Þeir Luke Walton og Lamar Odom áttu einnig frábæran leik fyrir Lakers. Odom skoraði 16 stig, hirti 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og Walton skoraði 10 stig, hirti 8 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Minnesota tapaði 10. útileiknum í röð. Ricky Davis skoraði 33 stig fyrir liðið og Kevin Garnett skoraði 26 stig og hirti 15 fráköst.

Þetta var í fyrsta skipti í 44 ár sem leikmaður Lakers skorar 50 stig eða meira í tveimur leikjum í röð, en það var hinn magnaði Elgin Baylor sem afrekaði það síðast - og þá í þremur leikjum í röð. Aðeins Antawn Jamison og Allen Iverson hafa skorað 50+ stig í tveimur leikjum í röð á síðasta áratug. Jamison, sem nú leikur með Washington, gerði það með Golden State árið 2000 og Iverson, sem nú leikur með Denver, gerði það með Philadelphia árið 2004.

Orlando stöðvaði óvænt níu leikja sigurgöngu granna sinna í Miami með 97-83 útisigri. Hedo Turkoglu skoraði 20 stig fyrir Orlando en Shaquille O´Neal skoraði 20 stig fyrir Miami, sem var án Gary Payton í leiknum - auk þeirra Dwyane Wade og Jason Kapono. Miami hafði unnið 14 heimaleiki í röð og tapið í gær var aðeins annað tap liðsins á heimavelli í þeim 42 leikjum sem liðið hefur spilað þar í febrúar- og marsmánuðum síðan Shaquille O´Neal gekk í raðir liðsins fyrir þremur árum.



Houston valtaði yfir Philadelphia á útivelli 124-74.
Þetta var stærsti útisigur í sögu Houston og stærsta tap Philadelphia í sögunni. Philadelphia hafði fyrir leikinn verið eitt heitasta liðið í deildinni hafði sigrað í 8 af 10 síðustu leikjum sínum, en Houston átti leikinn í gær á öllum sviðum körfuboltans. Yao Ming skoraði 24 stig og hirti 10 fráköst fyrir Houston og Tracy McGrady skoraði 21 stig. Kyle Korver skoraði 17 stig fyrir Philadelphia, sem tapaði fyrri leiknum við Houston líka mjög stórt og var á kafla meira en 40 stigum undir í þeim leik sem endaði með 105-84 fyrir Houston.

New Jersey lagði LA Clippers 101-95 á heimavelli og hélt í vonina um að ná sæti í úrslitakeppni Austurdeildarinnar. Jason Kidd skoraði 23 stig, gaf 13 stoðsendingar, hirti 6 fráköst og stal 6 boltum fyrir New Jersey - en Cuttino Mobley skoraði 27 stig fyrir Clippers.

Loks vann Seattle góðan sigur á Portland í einvígi liðanna í norðvestrinu 95-77, þar sem Seattle tryggði sigurinn með 28-16 rispu í fjórða leikhlutanum. Rashard Lewis skoraði 27 stig og hirti 12 fráköst fyrir Seattle, en Zach Randolph skoraði 16 stig fyrir Portland.

Tveir aðrir leikir voru á dagskrá í NBA í gærkvöldi þar sem New York lagði Toronto á heimavelli og Dallas skellti Detroit á útivelli, en nánar var greint frá því hér á Vísi í gærkvöld. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×