Innlent

Sáttmáli gegn stóriðjuáformum

Framtíðarlandið kynnti í dag sáttmála um framtíð Íslands sem þeir bjóða almenningi og ráðamönnum þjóðarinnar að skrifa undir. Átakið stendur yfir í 10 daga og hvetja samtökin alla þingmenn og stjórnmálaflokka að hverfa frá frekari stóriðjuáformum.

Framtíðarlandið kynnti hugmyndir sínar í þjóðmenningarhúsinu í dag og er Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands verndari sáttmálans.

Andri Snær Magnason, rithöfundur segir að komist allar áætlanir um stækkun og byggingu nýrra álvera til framkvæmda verði Ísland ein stærsta álbræðsla í heimi.



„Það er brjálæðislegur virkjanahraði núna og í raun ein kynslóð sem telur sig geta ráðstafað öllum orkuforðanum til stóriðju. Ef af þessum áformum verður eins og stefnir í verðum við búin að fullnýta þær orkulindir sem við höfum á landinu," segir Andri



Vigdís Finnbogadóttir verndari sáttmálans segir hann löngu tímabæran. „Mér finnst öll hugsun í þessu vera mjög einhæf. Það er eins og það séu engar aðrar úrlausnir til en þessar. Ég held að það sé ekki Íslandi til láns," segir Vigdís. Hún segir að Íslendingar eigi að virkja fyrir landið sitt en ekki erlenda stóriðju. „Mér finnst eins og það sé verið að nota okkur. Það er verið að ýta á okkur og hvetja, til að taka að okkur eitthvað sem aðrar þjóðir vilja ekki hafa. Það er engin trygging fyrir því að Ísland græði eitthvað á stóriðju í framtíðinni. Ég held meira að segja að afkomendur okkar rífi þetta allt saman eins og byrjað er að gera í Bandaríkjunum, þar sem menn vilja ekki hafa þetta." segir hún.



Hægt er að skrifa undir sáttmálann á heimasíðu Framtíðarlandsins, www.framtidarlandid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×