Körfubolti

Hæ krakkar, notið eiturlyf

Scot Pollard fór illa að ráði sínu um helgina
Scot Pollard fór illa að ráði sínu um helgina NordicPhotos/GettyImages

Miðherjinn Scot Pollard hjá Cleveland Cavaliers er ekki vinsælasti maðurinn í Ohio um þessar mundir eftir misheppnað grín hans í beinni útsendingu sjónvarps á sunnudaginn.

Pollard er varaskeifa hjá liði Cleveland og sat spariklæddur á varamannabekk liðsins þegar það spilaði við Indiana Pacers á sunnudaginn. Í einu leikhléanna beindi myndatökumaður vél sinni að Pollard, sem horfði í linsuna og sagði upphátt; "Hæ krakkar, notið eiturlyf."

Það var reiður heimilisfaðir í Ohio sem vakti fyrst athygli á þessu uppátæki leikmannsins og skömmu síðar var frétt um málið komin í staðarblaðið Plain Dealer. Maðurinn sagðist hafa verið að horfa á leikinn með 11 ára gömlum syni sínum og sagðist ekki hafa trúað eigin eyrum.

"Ég átti ekki til orð. Þetta segir maðurinn í beinni útsendingu í sjónvarpinu klukkan sex á sunnudegi þegar fjölskyldan ver tíma sínum saman fyrir framan sjónvarpið. Hvað hefði eiginlega gerst ef þetta hefði verið LeBron James sem sagði þetta? Hefði hann ekki misst alla sína auglýsingasamninga undir eins? Væri fréttin þá ekki á forsíðum allra blaða í landinu?"

Pollard sagðist sjálfur sjá eftir orðum sínum og sagði þetta hafa verið lélegan brandara af sinni hálfu. Það er hægt að segja allt mögulegt um þetta - en þetta var bara lélegur brandari," sagði Pollard, sem var tekinn inn á teppi hjá stjórn Cleveland fyrir uppátækið en verður væntanlega ekki sektaður.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×