Körfubolti

Endurkoma Krists gæti ekki bjargað okkur

Phil Jackson er ekki vanur því að tapa
Phil Jackson er ekki vanur því að tapa NordicPhotos/GettyImages

Slæmt gengi LA Lakers í NBA deildinni undanfarið er farið að hafa áhrif á ótrúlegustu menn. Sjálfur Zen-Meistarinn Phil Jackson lét hafa eftir sér í LA Times í dag að liðið spilaði svo illa þessa dagana að sjálfur Kristur gæti ekki bjargað því.

Lakers-liðið hefur nú tapað sex leikjum í röð og er það í annað skipti á fimm vikum sem liðið þar að sætta sig við svo langa taphrinu. "Við erum að spila svo illa að ég var að hugsa um að setjast í helgan stein," sagði Jackson þjálfari kaldur og bætti við; "Við erum að spila svo illa að endurkoma Jesú Krists myndi ekki geta hjálpað okkur. Við erum bara alls ekki að spila sem lið."

Meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn hjá liðinu í vetur, en góðu fréttirnar eru þær að bæði Lamar Odom og Luke Walton verða í hópnum á ný á fimmtudagskvöldið þegar liðið mætir Denver. Sá leikur verður ekki síður mikilvægur í ljósi þess að Denver er nú aðeins rétt á eftir Lakers í baráttunni um góða stöðu í úrslitakeppninni í Vesturdeildinni.

Meiðslin hafa verið það mikil í herbúðum Lakers undanfarið að aðstoðarþjálfararnir Craig Hodges og Brian Shaw tóku þátt í æfingum liðsins síðustu daga. Shaw var í meistaraliði Lakers í upphafi aldarinnar en Hodges í liði Chicago þegar það vann fyrri þrjá titla sína í upphafi tíunda áratugarins. Þeir félagar litu víst vel út á æfingunni og höfðu engu gleymt - þó þeim hafi ekki verið boðin staða í liðinu að svo búnu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×