Körfubolti

Versta tap í sögu LA Lakers á heimavelli

Frá leik Dallas og Lakers í nótt.
Frá leik Dallas og Lakers í nótt. MYND/Getty

Ekkert lát er á sigurgöngu Dallas í NBA-deildinni í körfubolta og í nótt vann liðið yfirburðasigur á LA Lakers, 108-72, útivelli. Þetta var 17. sigur Dallas í röð og hefur liðið nú unnið 52 af 61 leik sínum í vetur. Þetta var jafnframt versta tap Lakers í sögu félagsins síðan það flutti frá Minneapolis til Los Angeles árið 1960.

Lakers skoraði aðeins 11 stig gegn 31 frá Dallas í 2. leikhluta og segja má að úrslit leiksins hafi ráðist þá. Varnarleikur liðsins var feykiöflugur og átti Lakers engin svör. Lakers hefur nú tapað sex leikjum í röð. Sigurganga Dallas er sú 8. lengsta frá upphafi og hefur liðið nú jafnað sigurgöngu Phoenix frá því fyrr í vetur.

"Það er engin afsökun fyrir okkar spilamennsku í dag. Við vorum einfaldlega lélegir," sagði Phil Jackson, þjálfari Lakers, eftir leikinn.

Josh Howard var öflugur í liði Dallas og skoraði 24 stig og Dirk Nowitzki skoraði 19 stig. Kobe Bryant skoraði 25 stig fyrir Lakers.

Yao Ming skoraði 37 stig fyrir Houston sem lagði Orlando, 103-92. Grant Hill skoraði 17 stig fyrir Orlando.

Udonis Haslem var hetja Miami þegar hann skoraði sigurkörfu liðsins gegn Washington í þann mund sem lokaflautið gjall. Lokatölur urðu 106-104, meisturum Miami í vil, en þetta var sjötti sigurleikur liðsins í röð. Eddia Jones skoraði 18 stig og Gary Payton 17 fyrir Miami. Gilbert Arenas skoraði 33 stig fyrir Washington.



Denver lagði Sacramento af velli 113-101. Allen Iverson skoraði 24 stig, gaf sjö stoðsendingar, hirti sex fráköst og stal fjórum boltum af andstæðingum sínum í leiknum. Carmelo Anthony var stigahæstur með 29 stig. Ron Artest spilaði sinn fyrsta leik fyrir Sacramento eftir að hafa verið í nokkurra leikja banni og skoraði 17 stig.

Þá skoraði LeBron James 26 stig þegar Cleveland vann sinn fimmta leik í röð. Í nótt var það Indiana sem lá í valnum, 99-88, og hefur liðið nú tapað níu leikjum í röð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×