Körfubolti

Miami og Cleveland minna á sig

Shaquille O´Neal lítur út fyrir að vera í mjög góðu formi þessa dagana og Miami vann í nótt 10. heimaleikinn í röð
Shaquille O´Neal lítur út fyrir að vera í mjög góðu formi þessa dagana og Miami vann í nótt 10. heimaleikinn í röð NordicPhotos/GettyImages

Nokkrir athyglisverðir leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt og þar á meðal tveir stórleikir í Austurdeildinni. Miami burstaði Chicago á heimavelli og hefndi fyrir ófarirnar úr opnunarleik sínum í haust og Cleveland vann þýðingarmikinn útisigur á Detroit á útivelli í framlengingu.

Leikur Miami og Chicago var sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni og var hann hin besta skemmtun, þar sem meistararnir sýndu á sér sparihliðarnar án Dwyane Wade og unnu stórsigur 103-70.

Chicago skoraði aðeins 27 stig í síðari hálfleiknum og sá þá aldrei til sólar gegn einbeittum meisturunum. Shaquille O´Neal átti fínan leik fyrir Miami og skoraði 24 stig, hirti 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og Eddie Jones skoraði 23 stig og hitti úr 8 af 11 skotum sínum utan af velli. Hann skoraði m.a. 14 stig í lokaleikhlutanum - annan leikinn í röð.

Cleveland vann góðan sigur á Detroit á útivelli 101-97. LeBron setti persónulegt met í vetur með 41 stigi og hirti auk þess 7 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hann virtist hafa gert út um leikinn langskoti um leið og lokaflautið gall í venjulegum leiktíma, en karfan var dæmd af því tíminn þótti hafa runnið út.

Rip Hamilton skoraði 29 stig fyrir Detroit og Chris Webber skoraði 20 stig og hirti 11 fráköst. Rasheed Wallace var á ný í liði Detroit eftir þriggja leikja fjarveru vegna meiðsla. Nú munar aðeins tveimur leikjum á Detroit og Cleveland á toppi Austurdeildarinnar.

Atlanta lagði Washington 100-97 þrátt fyrir að vera án Joe Johnson. Gilbert Arenas skoraði 28 stig fyrir Washington en Zaza Pachulia skoraði 27 stig og hirti 12 fráköst fyrir Atlanta.

Philadelphia lagði Seattle 92-89 þar sem Andre Iguodala náði þrefaldri tvennu fyrir Philadelphia með 25 stigum, 11 fráköstum og 10 stoðsendingum. Ray Allen skoraði 29 stig fyrir Seattle.

Toronto sigraði Memphis 94-87 eftir þriggja leikja taphrinu. Mike Miller skoraði 19 stig fyrir Memphis og Chris Bosh 19 fyrir Toronto, auk þess að hirða 9 fráköst.

Houston burstaði Boston á útivelli 111-80. Tracy McGrady skoraði 25 stig og gaf 9 stoðsendingar fyrir Houston en Paul Pierce og Al Jefferson skoruðu 20 stig fyrir Boston.

Milwaukee burstaði LA Lakers 110-90 þar sem Charlie Villanueva skoraði 26 stig fyrir Milwaukee en Mo Evans skoraði 22 stig fyrir Lakers - sem var án Kobe Bryant sem tók út leikbann (sjá frétt hér á Vísi). Bryant verður klár í slaginn í næsta leik sem er á útivelli við Philadelphia og verður hann sýndur á Sýn á miðnætti annað kvöld.

Phoenix þurfti framlengingu til að leggja Charlotte 115-106 á heimavelli sínum. Varamaðurinn Leandro Barbosa setti persónulegt met hjá Phoenix með 32 stigum, þar af 7 þristum úr 11 tilraunum - og setti hann m.a. tvo þrista í framlengingunni sem gerðu út um leikinn. Steve Nash skoraði 24 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir Phoenix, en Amare Stoudemire var rekinn úr húsi í fyrri hálfleik eftir að hann fékk tvær tæknivillur fyrir kjaftbrúk. Gerald Wallace skoraði 22 stig og hirti 15 fráköst fyrir Charlotte, sem tapaði öllum sex leikjum sínum á nýafstöðnu keppnisferðalagi.

Utah burstaði Indiana 94-72 og vann fimmta leikinn í röð. Deron Williams skoraði 17 stig fyrir Utah og Carlos Boozer skoraði 14 stig og hirti 16 fráköst, en Troy Murphy skoraði 15 stig fyrir Indiana, sem missti Jermaine O´Neal af velli um miðbik leiksins vegna hnémeiðsla.

Úrslit úr leik Golden State og Denver koma síðar, en þar var Carmelo Anthony fjarri góðu gamni þar sem hann og kona hans tóku á móti sínu fyrsta barni í gærkvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×