Körfubolti

Kobe Bryant tók út bann í nótt

Tekur Kobe Bryant gremju sína út á Philadelphia í beinni á Sýn á föstudagskvöldið?
Tekur Kobe Bryant gremju sína út á Philadelphia í beinni á Sýn á föstudagskvöldið? NordicPhotos/GettyImages

Kobe Bryant hjá LA Lakers tók út eins leiks bann í nótt þegar lið hans steinlá á útivelli fyrir Milwaukee Bucks 110-90 á útivelli. Bryant fékk bannið fyrir að slá til Marco Jaric hjá Minnesota Timberwolves í fyrrinótt.

Atvikið var nánast nákvæmlega eins og þegar Bryant fékk bann fyrr í vetur fyrir að slá til Manu Ginobili hjá San Antonio. Bryant var þá, líkt og í fyrrinótt, að baða út höndunum í loftinu eftir að skot hans hafði verið varið - og gaf hann bæði þeim Ginobili og Jaric hressilegt kjaftshögg í kjölfarið.

Phil Jackson þjálfari Lakers kom Bryant til varnar og sagði handapat leikmannsins vera þátt í leik hans til að reyna að veiða villur á andstæðinga sína, en aganefnd deildarinnar var á öðru máli og dæmdi hann aftur í eins leiks bann. Tilkynningunni fylgdu einnig þau skilaboð að Bryant skildi passa sig á svona tilþrifum í framtíðinni, því ef hann yrði uppvís að þessu aftur fengi hann þyngri refsingu.

Rétt eins og í fyrri leiknum sem Bryant var ekki með vegna leikbannsins, tapaði Lakers-liðið leiknum stórt. Leikbannið er hinsvegar alls ekki góð tíðindi fyrir næstu andstæðinga Lakers þegar Bryant kemur úr banninu ef marka má fyrra tilvikið, því þá tók hann gremju sína út í leiknum á eftir.

Það gerði hann í fyrra skiptið gegn Boston Celtics, þar sem hann skoraði 43 stig, hirti 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hann hitti líka úr 7 af 9 þristum sínum í þeim leik. Liðið sem fær það óöfundsverða hlutskipti að mæta Bryant í næsta leik er Philadelphia 76ers, en svo skemmtilega vill til að sá leikur verður einmitt sýndur beint á Sýn á miðnætti á föstudagskvöldið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×